Það var fámennt en góðmennt á Íslandsmótinu í atskák 2018 sem fram fór í nýju og glæsilegu húsnæði Amtbókasafnsins í Stykkishólmi um helgina. Stigahæsti þátttakandinn Jón Viktor Gunnarsson Víkingaklúbbnum kom vel stemmdur til leiks og stóð uppi sem sigurvegari með 9,5 vinninga af 10 mögulegum sem er glæsileg frammistaða eftir 10 klukkustunda taflmennsku.
Jón Viktor gerði einungis jafntefli við Davíð Kjartansson Fjölni í 4. umferð en vann allar aðrar viðureignir sínar. Davíð sem var næst stigahæstur keppenda varð síðar á mótinu að sætta sig við tap gegn félaga sínum í Fjölni, Degi Ragnarssyni. Dagur varð í öðru sæti með 9 vinninga og Davíð Kjartansson í því þriðja með 8,5 vinninga Fyrir utan innbyrðis skákir þessara þriggja reyndust þeir vera í nokkrum sérflokki á mótinu og unnu alla aðra keppendur.
Þátttakendur voru átján talsins og staðan jöfn og spennandi fyrir utan þrjú efstu sætin. Keppt var um níu verðlaun og reyndust liðsmenn Fjölnis þar fengsælir með sex þeirra. Erlingur Þorsteinsson Fjölni hlaut verðlaun fyrir 4. sætið. Kvennaverðlaunin hreppti Sigríður Björg Helgadóttir Fjölni og frændi hennar Kristján Dagur Jónsson TR unglingaverðlaunin. Fyrir bestan árangur miðað við 2000 + atskákstig var það Jón Árni Halldórsson Fjölni og Jóhann Arnar Finnsson Fjölni með bestan árangur miðað við atskákstig – 1999 stig. Loks ber að nefna að Jon Olav Fivelstad TR nældi sér í öðlingaverðlaunin. Auk verðlaunapenings fengu verðlaunahafar peningaupphæð allt upp í 100.000 kr sem komu í hlut sigurvegarans. Skákstjórnin var í öruggum höndum Kristjáns Arnar Elíassonar.
Sjá nánar á skak.ishttps://skak.is/2018/11/19/jon-viktor-islandsmeistari-i-atskak-2018/
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment