Wednesday, March 31, 2010

Gunnar Fr. sigraði á þriðjudagsæfingu

Þriðja vikulega æfing Víkingaklúbbsins var haldin í gær þriðjudaginn 30. mars. Æfingarnar hafa að mestu verið færðar af miðvikudögum yfir á þriðjudaga, vegna þess hversu margir eru almennt uppteknir á miðvikudögum. Menn eru þó beðnir um að fylgjast með ef við þurfum að breyta dagsetningum, sem er oft óhjákvæmilegt.

Æfingin í gær heppnaðist mjög vel. Þó þurfti formaður klúbbsins að vera viðstaddur mikilvægan húsfund og bað menn um að byrja án sín, en þeir vildu frekar taka nokkra skákir og því hófst mótið ekki fyrr en klukkan var rúmlega 21.00. Því var ákveðið að tefla 7. mínútna skákir og allir við alla. Einn nýliði bættist í hópinn, gamli unglingameistarinn Þröstur Þórsson fékk þarna sína eldskírn og stóð sig mjög vel miðað við aðstæður. Gunnar Fr. náði að sigra allar skákir sínar og var í feikna stuði eftir krefjandi húsfund. Sveinn Ingi byrjaði mótið frekar illa og endaði í 3. sæti, sem er mjög óvenjulegt, sem sýnir þó að hversu standartinn í Víkingaskákinni er að verða hár. Sveinn Ingi gerði jafntefli við Sigurð Ingason og Inga Tandra, en tapaði fyrir Gunnari Fr. Ingi Tandri náði öðru sæti á mótinu og tapaði m.a í æsispennandi skák við Gunnar. Ingi er orðinn mjög sterkur í leiknum og endar yfirleitt ekki neðar en í öðru sæti.

Úrslit

1. Gunnar Fr. Rúnarsson 5.0 vinninga
2. Ingi Tandri Traustason 3.5
3. Sveinn Ingi Sveinsson 3.0
4. Halldór Ólafsson 2.0
5. Sigurður Ingason 1.5
6. Þröstur Þórsson 0.0

Monday, March 29, 2010

Endurskoðuð móta og æfingaáætlun

Við viljum endilega benda áhugasömum á nýja endurskoðaða æfingaáætlun þar sem tillit var tekið til óska nokkra áhugamanna.

Mótaáætlun vorið 2010

30. mars æfing/hraðmót (þriðjudagur)
6. apríl atkvöld (þrjá hraðskákir / þrjár atskákir)(þriðjudagur)
13. april æfing (þriðjudagur)
20. april æfing (þriðjudagur)
22. april Deildarkeppni í Víkingaskák í Vin* (15 min á skák)(fimmtudagur)
27. april æfing (þriðjudagur)
4. mai Íslandsmótið í Víkingahraðskák (7 mín á skák)& fundur í Víkingaklúbbnum (þri)
11. mai æfing (þriðjudagur)
18. mai Íslandsmótið í Víkingaaskák (25 min á skák)& fundur í Víkingakistunni
20. mai Íslandsmótið í Víkingaaskák umferð 4-6.
25. mai Bændaglíman (skák & víkingaskák)
1. júní Aðalfundur Víkingaklúbbsins

*Deildarkeppnin verður haldin í Vin Hverfisgötu. Þar er reiknað með að c.a 6. lið berjist um liðabikarinn.

Thursday, March 25, 2010

Gunnar Fr. sigrar á sterku miðvikudagsmóti

Önnur Víkingaskákæfing vetrarins var haldin í gær. Mótið var mjög sterkt og endaði með því að Gunnar Fr. stóð uppi sem siguvegari eftir hörku keppni við þá Inga Tandra Traustason og Rúnar Berg. Rúnar Berg sem var að tefla á sínu öðru V'ikingaskákmóti stóð sig mjög vel, en tapaði í fyrstu umferð fyrir Gunnari Fr, í mikilli báráttuskák. Gunnar Fr. gerði aðeins eitt jafntefli gegn Inga Tandra, en Rúnar vann allar sínar skákir eftir tapið í fyrstu umferð, en leyfði eitt janftefli við Sigurð Ingason. Umhugsunartími var 15. mínútur á skák og allir tefldu við alla. Næsta Víkingaskákæfing verður þriðjudaginn 30. mars í félagsheimilinu Kjartansgötu 5 og hefst hún stundvíslega kl 20.00.

Úrslit

1. Gunnar Fr. Rúnarsson 4.5 vinninga
2-3 Rúnar Berg 3.5
2-3 Ingi Tandri Traustason 3.5
4 Sigurður Ingason 2
5. Halldór Ólafsson 1.5
6. Arnar Valgeirsson 0

Víkingar æfa sig

Sverrir Sigurðsson, Gunnar Ingibergsson og Jón Úlfljótsson eru duglegir að mæta á skákæfingar þessa dagana. Sverrir náði m.a að sigra á síðustu fimmtudagsæfingu í TR ásamt fjórum öðrum. Jón Úlfljótsson fylgdi svo fast á hæla þeirra. Jón er einnig skráður á Íslandsmót öðlinga á miðvikudagskvöldum. Hörkumót þar sem margar frægir kappar etja saman hesta sína.

Úrslit fimtudagsmótsins hér:

Saturday, March 20, 2010

Árangur Víkinga á Íslandsmóti skákfélaga

Víkingaklúbburinn a & b stóð sig frábærlega á Íslandsmóti skákfélaga sem nú er nýlokið. Gamall draumur formanns klúbbsins um að lyfta 4. deildarbikarnum varð loks að veruleika á 3. ári Víkingaklúbbsins sem keppnisliðs í 4. deild. B liðið stóð sig frábærlega í fyrri hlutanum, en stóð sig ekki eins vel í seinni hlutanum og var í raun hársbreidd frá að tryggja sér sæti í 3. deild (þs ef liðum í þriðjudeild verður fjölgað um helming). A liðið þótti af mörgum eitt sigurstranglegasta liðið, en með liðinu tefldu m.a sjö menn með alþjóðleg stig yfir 2000 eló. Á tveim efstu borðum tefldu svo tveir öflugir fidemeistarar. Það kom því ekki mörgum á óvart að a-liðið skyldi hafa náð efstu sætum.

Árangur einstaka liðsmanna Víkingaklúbbsins

Ólafur B. Þórsson tefldi frábærlega í seinni hlutanum og var árangur hans lykillinn að því að klúbburinn náði takmarki sínu. Ólafur fékk 2.5 vinninga af þrem mögulegum í seinni hlutanum, en samdi reyndar um jafntefli við Sævar Bjarnason í stöðu sem Ólafur hefði mjög líklega getað teflt til vinnings. Við virðum hins vegar ástæður þess að Ólafur tók jafnteflisboði Sævars. Ólafur stóð sig best Víkinga í seinni hlutanum, en fékk 1 vinning af tveim í fyrri hlutanum.

Tómas Björnsson tefldi að miklu öryggi að vanda og tapaði ekki skák. Fékk 2. vinninga af þrem í seinni hlutanum.

Stefán Þór Sigurjónsson gat teflt allar skákirnar í seinni hlutanum. Hann fékk 2 vinninga af þrem og er mjög þéttur liðsmaður. Hann fékk 2.5 vinninga af þrem í fyrri hlutanum og stóð sig í heildina mjög vel.

Haraldur Baldursson er mjög öruggur liðsmaður. Hann stóð sig mjög vel í fyrri hlutanum með fullt hús, en fékk 1.5 vinninga af þrem í seinni hlutanum.

Gunnar Fr. Rúnarsson fékk 2 vinninga af þrem í seinni hlutanum. Tapaði illa fyri Vestamannaeyjum B í 6. umferð en vann hinar tvær skákirnar. Hann fékk svo 2.5 vinninga af fjórum í fyrri hlutanum og tapar því enn alþjóðlegum skákstigum. Formaðurinn var kannski með slakasta árangur A-liðsmanna í keppninni miðað við skákstig. Liðstjórn a&b liðsins tók frá honum mikla orku, en hann hefur samt í gegnum árin verið nokkuð góður í liðakeppni. Oftast verið sókndjarfur og afslappaður í sinni taflmennsku. Í ár tefldi hann langt undir getu og verður að öllum líkindum í b-liðinu á næsta tímabili.

Sverrir Sigurðsson stóð sig mjög vel í keppninni. Hann fékk tvo vinninga af þrem í seinni hlutanum og átti einnig mjög góðan árangur í fyrri hlutanum. Var óheppinn eins og fleirri að tapa í fyrstu umferði gegn KR-b. Sverrir er komin í góða æfingu og er þéttur liðsmaður og er að bæta sig. Sverrir verður í a-liðinu á næsta tímabili, ef hann gefur kost á sér.

Baldvin Skúlason alþjóðlegur meistari í bréfskak tefldi eina skák með a-liðinu í fyrri hlutanum. Hann sigraði sinn andstæðing í 2. umferði og endaði því með 100% árangur. Baldvin er eins og Sverrir og Gunnar keppnismaður í kraftlyftingum og er heimsmeistari & heimsmethafi í bekkpressu öldunga, en hann á best 250 kg í bekkpressu. Fjórði lyftingamaðurinn í Víkingaklúybbnum, Kári Elíson gat ekki teflt með okkur að þessu sinni, en Kári er margfaldur heimsmeistari, evrópumeistari í kraftlyftingum.

Jónas Jónasson tefldi tvær skákir með a-liðinu í fyrri hlutanum og þrjá skákir með b-liðinu. Jónas stóð sig vel, fékk 1. vinning af tveim á fyrsta borði í seinni hlutanum og náði m.a jafntefli við sjálfan IM Bjarnason.

Óskar Haraldsson tefldi tvær síðustu skákirnar með b-liðinu í seinni hlutanum og stóð sig með prýði á efstu borðum. Tapaði fyrir Goðanum, en vann sína skák gegn sterkum keppanda frá Akureyri-b

Svavar Viktorsson stóð sig vel með b-liðinu í fyrri hlutanum. Í seinni hlutanum átti hann hins vegar erfitt prógram, gengn Goðanum-a og Akureyri-b.

Ingimundur Guðmundsson tefldi aðeins eina skák með b-liðinu. Hann tefldi mjög vel gegn sterkri b-sveit Eyjamann, en tapaði að lokum sinni skák. Ingimundur er eins og Svavar mjög hæfileikaríkur skákmaður sem hefur staðið sig mjög vel í sveitakeppni síðustu árin.

Sveinn Ingi Sveinsson
tefldi með b-liðinu í seinni hlutanum og stóð sig með prýði. Vann sína skák, gegn Vestmannaeyingum b. Sveinn hefur lítið teflt síðan 1982. Tefldi þó nokkrar skákir með Vestmanneyingum í byrjun tíunda áratugarsins, en hefur lítið hreyft peð síðustu 18. ár.

Jón Úlfljótsson stóð sig frábærleg í fyrri og seinni hlutanum. Jón hefur teflt mikið í vetur eftir að hann gekk til liðs við Víkingaklúbbinn og er mjög öruggur skákmaður. Jón mun sennilega færast upp í a-sveitina á næsta tímabili, ef hann verður áfram með okkur.

Halldór Ólafsson tefldi eina skák í seinni hlutanum og tapaði. Halldór er sterkur skákmaður þegar hann fær að tefla sínar stöður. Halldór hefur oft gert betur.

Ágúst Örn Gíslason stóð sig frábærlega í fyrri hlutanum og varð ásamt Jóni Ú og Þresti Þórssyni lykilinn að góðum árangri í fyrri hlutanum. Ágúst tefldi eina skák í seinni hlutanum og tapaði fyrir Vestmannaeyjum-b. Ágúst gat ekki teflt tvær síðustu umferðir mótsins eins búist hafði verið við. Ágúst átti samt í heildina mjög góðan árangur, 4 vinninga af fimm mögulegum og verður vonandi sterkur á næsta tímabili.

Þröstur Þórsson gamli unglingameistarinn kom aftur að skákborðinu eftir áratuga hvíld. Hann stóð sig frábærlega í fyrri hlutanum, en tapaði báðum skákum sínum í seinni hlutanum. Þröstur er þéttur skákmaður sem við eigum vonandi eftir að sjá aftur.

Jón Jóhannesson tefdi eina skák í fyrri hlutanum og eina í seinni. Hann tefldi góðar sóknarskákir og var með vinningstöðu í báðum, en tapaði báðum slysalega. Jón er þéttur skákmaður sem gott er að hafa í sínu liði.

Gunnar Ingibergsson tefldi eina skák með b-liðinu en tapaði. Gunnar hefur teflt mikið í vetur og er í stöðugri framför. Hann var ekki heppinn með andstæðing, því hann lenti gegn sterki sveit Goðans. Gunnar á vonandi eftir að tefla meira á næsta Íslandsmóti.

018

Friday, March 19, 2010

Fyrsta æfingin

Fyrsta miðvikudagsæfing Víkingaklúbbsins var mjög vel sótt, miðað við að hún var ekki vel auglýst. Mættu þar átta öflugir áhugamenn. Ákveðið var að allir skyldu tefla við alla og umhugsunartíminn var 6. mínútur. Efstir á mótinu urðu þeir Ingi Tandri Traustason og Sveinn Ingi Sveinsson með 5.5 vinninga. Þriðji var svo Gunnar Fr. Rúnarsson með 4.5 vinninga. Ingi og Sveinn tefldu svo eina úrslitaskák um fyrsta sætið, sem endaði með því að Sveinn hafði betur eftir hörkubaráttu. Ingi Tandri sýndi þarna að hann hefur stymplað sig rækilega inn í víkingaskákina. Til marks um hvað mótið var sterkt var sú staðreynd að Halldór Ólafsson heimsmeistarinn frá 2006, endaði í neðsta sæti á þessu móti.

Úrslit

1-2 Sveinn Ingi Sveinsson 5.5 vinningar
1-2 Ingi Tandri 5.5
3 Gunnar Fr. Rúnasson 4.5
4 Tómas Björnsson 3.5
5 Stefán Þór Sigurjónsson 3.0
6-7 Sigurður Ingason 2.5
6-7 Jorge Fonsega 2.5
8 Halldór Ólafsson 1.0

Næsta æfing verður miðvikudaginn 24. mars og hefst hún stundvíslega kl 20.00. Stefnt er að æfingum á miðvikudgögum, en í einstaka tilfellum verða æfingar og mót færð á þriðjudaga eða fimmtudaga eftir atvikum. Meðal annars verður deildarkeppnin í Víkingaskák fimmtudaginnn 15. april í húsnsæði Vinjar við Hverfisgötu.


Monday, March 15, 2010

Mótaáætlun Víkingaklúbbsins

Ágætu félagar

Æfingar Víkingaklúbbsins verða á miðvikudögum fram á vor. Fyrsta formlega æfingin verður miðvikudaginn 17. mars og hefst stundvíslega kl 20.00. Hvetjum félagsmenn til að kíkja við að Kjartansgötu 5 (kjallara) og kíkja á aðstöðuna. Í sumum tilfellum verða æfingar færðar frá miðvikudegi yfir til fimmtudags en það verður auglýst sérstaklega síðar.

Mótaáætlun vorið 2010

17. mars æfing
24. mars æfing/atkvöld
31. mars æfing/hraðmót
7. mars æfing
14 april Deildarkeppni í Víkingaskák* (15 min á skák)
21 april atmót
28 april Íslandsmótið í Víkingahraðskák (7 mín á skák)
5. mai æfing
12. mai Íslandsmótið í Víkingaaskák (25 min á skák)

* Birt með fyrirvara um breytingar, m.a vegna Íslandsmótsins í skák, vegna öðlingamóts í skák og annara ótilgreindra ástæðna.

* Deildarkeppnin í Víkingaskák verður ekki haldin fyrr en Arnar í Vin & Lagerman koma frá Grænland (Skoresbysundi)i, þar sem Hrókurinn er með skáktrúboð. Deildarkeppnin verður að öllum líkindum haldin í húsnæði Vinjar að Hverfisgötu.

Sjáumst hressir. kv Stjórnin!

Sunday, March 7, 2010

Víkingaklúbburinn Íslandsmeistari skákfélaga í 4. deild

Víkingaklúbburinn náði um helgina að vinna 4. deildina á Íslandsmóti skákfélaga eftir hörku keppni við Taflfélaga Vestmannaeyja-b og Skákdeild KR-b. Fyrir síðustu umferð í gær var Víkingaklubburinn í 3. sæti, en náði með ótrúlegri hörku að vinna stórt í síðustu umferð þegar við lögðum Skáksamband Austurland með 5.5-0.5. KR-ingar voru efstir fyrir síðustu umferð með 2. vinningum meira en Víkingaklúbburinn, en þeir töpuðu fyrir Vestmannaeyingum 4-2 og féllu þar með niður í 3. sætið.

B-lið Víkingaklúbbsins byrjaði mótið mjög vel, en því miður átti hið vaska lið ekki góðan dag í 3. síðustu umferðum og endaði í miðri deild. Því miður þurfti nokkrir b-liðsmann að fá óvænt frí. Einn sterkast skákmaðurinn svaf svo yfir sig og gat því miður ekki mætt í tvær síðustu umferðirnar. Liðið féll því óþarflega langt niður töfluna og missti því af þriðju deildar sæti að ári, en talið er að sex lið komist upp úr deildinni á næsta tímabili, en útlið er fyrir að Skáksambandið fjölgi liðum í 3. deild eftir næsta aðalfund.

Því miður kom upp kærumál í 4. deildinni, sem skyggði á sigurgleði Víkingaklúbbsins. Skákfélag Vestmannaeyja voru ekki sáttir við borðaröð Víkingaklúbbsins-b gegn þeim í 7. umferð. Svavar Viktorsson sem tefla átti á 2. borði boðaði forföll á síðustu stundu. Fyrr um daginn hafði þó Svavar tjáð Þorgeiri liðstjóra b-sveitar að hann gæti hugsanleg ekki teflt á föstudagskvöldið. Formaðurinn bað þá Þorgeir að hafa varamann til taks, en þetta kvöld var Ingimundur fengin til að hlaupa í skarðið. Á siðustu stundu var ákveðið að setja Ingimund á 2. borð, en Jónas Jónasson var á 1. borði, Sveinn Ingi Sveinsson á 3. borði, Jón Úlfljótsson á 4. borði, Ágúst Örn á 5. borði og Þröstur Þórsson á 6. borði. Vestmannaeyingar töldu að samkvæmt styrkleika ætti Ingimundur að tefla á 4-6 borði, en ekki fyrir ofan Svein Inga, sem er þó nokkru stigahærri en Ingimundur. Við töldum hins vegar að við værum í fullum rétti að raða liðinu svona, því Ingimundur hefur staðið sig gríðarlega vel fyrir klúbbinn á síðustu mótum. Meðlimir Víkingaklúbbsins b-sveitar eru flestir óvirkir skákmenn sem ekki hafa teflt í alvörumótum í áratugi og því segja elo-stigin ekki allt um styrkleika mann þá stundina. Auk þess vilja þeir óvirku ekki tefla á efstu borðum. Reglur keppninnar segja að það eigi að raða sveitum eftir styrkleika, en ekki elo-stigum. Fjölmörg dæmi eru um innáskiptingar af þessu tagi í gegnum árin. Það skal taka fram að Vestmannaeyingar unnu viðureignina 4-2, en Sveinn Ingi sigraði sinn andstæðing á 3. borði. Jónas Jónasson náði jafntefli við sjálfan IM Sævar Bjarnason og Jón Úlfljótsson gerði jafntefli við Sigurjón Bakara.

Við Vestmannaeyinga vini okkar vil ég segja að það var aldrei ætlun okkar að bregða fyrir þá fæti með ólöglegum hætti. Liðstjórar Víkingaklúbbsins töldu og telja enn að þeir hafi ekki verið að brjóta neinar reglur með þessari innáskiptingu. Reglur í Íslandsmóti skákfélaga eru ekki einfaldar, en þær helstu eru þær að menn verða að vera skáðir í viðkomandi félag um þrem vikum fyrir mótið. Lið mega ekki breyta borðaröð manna í sveit eða milli a & b sveita. Við teljum þó að það megi skerpa reglur Íslandsmótisins og gera þær einfaldari. Spurningarnar sem vakna við svona ágreining eru margar og því er það sjálfsagður réttur skáksveita að leggja fram kæru til mótanefndar telji lið að á þeim hafi verið brotið.



Fréttir af Víkingum

Jón Úlfljótsson sigraði glæsilega á atkvöldi Hellis um daginn. Jón var einn af þeim skákmönnum sem tefldi með Víkingaklúbbnum í 4. deildinni í vetur.

Tómas Björnsson og Sverrir Sigurðsson tóku þátt í MP Reykjavík open og stóðu sig nokkuð vel. Þeir voru síðar burðarásarnir í a-sveit Víkingaklúbbsins í Íslandsmeistarmóti skákfélaga sem nú er lokið.