Sunday, March 7, 2010

Víkingaklúbburinn Íslandsmeistari skákfélaga í 4. deild

Víkingaklúbburinn náði um helgina að vinna 4. deildina á Íslandsmóti skákfélaga eftir hörku keppni við Taflfélaga Vestmannaeyja-b og Skákdeild KR-b. Fyrir síðustu umferð í gær var Víkingaklubburinn í 3. sæti, en náði með ótrúlegri hörku að vinna stórt í síðustu umferð þegar við lögðum Skáksamband Austurland með 5.5-0.5. KR-ingar voru efstir fyrir síðustu umferð með 2. vinningum meira en Víkingaklúbburinn, en þeir töpuðu fyrir Vestmannaeyingum 4-2 og féllu þar með niður í 3. sætið.

B-lið Víkingaklúbbsins byrjaði mótið mjög vel, en því miður átti hið vaska lið ekki góðan dag í 3. síðustu umferðum og endaði í miðri deild. Því miður þurfti nokkrir b-liðsmann að fá óvænt frí. Einn sterkast skákmaðurinn svaf svo yfir sig og gat því miður ekki mætt í tvær síðustu umferðirnar. Liðið féll því óþarflega langt niður töfluna og missti því af þriðju deildar sæti að ári, en talið er að sex lið komist upp úr deildinni á næsta tímabili, en útlið er fyrir að Skáksambandið fjölgi liðum í 3. deild eftir næsta aðalfund.

Því miður kom upp kærumál í 4. deildinni, sem skyggði á sigurgleði Víkingaklúbbsins. Skákfélag Vestmannaeyja voru ekki sáttir við borðaröð Víkingaklúbbsins-b gegn þeim í 7. umferð. Svavar Viktorsson sem tefla átti á 2. borði boðaði forföll á síðustu stundu. Fyrr um daginn hafði þó Svavar tjáð Þorgeiri liðstjóra b-sveitar að hann gæti hugsanleg ekki teflt á föstudagskvöldið. Formaðurinn bað þá Þorgeir að hafa varamann til taks, en þetta kvöld var Ingimundur fengin til að hlaupa í skarðið. Á siðustu stundu var ákveðið að setja Ingimund á 2. borð, en Jónas Jónasson var á 1. borði, Sveinn Ingi Sveinsson á 3. borði, Jón Úlfljótsson á 4. borði, Ágúst Örn á 5. borði og Þröstur Þórsson á 6. borði. Vestmannaeyingar töldu að samkvæmt styrkleika ætti Ingimundur að tefla á 4-6 borði, en ekki fyrir ofan Svein Inga, sem er þó nokkru stigahærri en Ingimundur. Við töldum hins vegar að við værum í fullum rétti að raða liðinu svona, því Ingimundur hefur staðið sig gríðarlega vel fyrir klúbbinn á síðustu mótum. Meðlimir Víkingaklúbbsins b-sveitar eru flestir óvirkir skákmenn sem ekki hafa teflt í alvörumótum í áratugi og því segja elo-stigin ekki allt um styrkleika mann þá stundina. Auk þess vilja þeir óvirku ekki tefla á efstu borðum. Reglur keppninnar segja að það eigi að raða sveitum eftir styrkleika, en ekki elo-stigum. Fjölmörg dæmi eru um innáskiptingar af þessu tagi í gegnum árin. Það skal taka fram að Vestmannaeyingar unnu viðureignina 4-2, en Sveinn Ingi sigraði sinn andstæðing á 3. borði. Jónas Jónasson náði jafntefli við sjálfan IM Sævar Bjarnason og Jón Úlfljótsson gerði jafntefli við Sigurjón Bakara.

Við Vestmannaeyinga vini okkar vil ég segja að það var aldrei ætlun okkar að bregða fyrir þá fæti með ólöglegum hætti. Liðstjórar Víkingaklúbbsins töldu og telja enn að þeir hafi ekki verið að brjóta neinar reglur með þessari innáskiptingu. Reglur í Íslandsmóti skákfélaga eru ekki einfaldar, en þær helstu eru þær að menn verða að vera skáðir í viðkomandi félag um þrem vikum fyrir mótið. Lið mega ekki breyta borðaröð manna í sveit eða milli a & b sveita. Við teljum þó að það megi skerpa reglur Íslandsmótisins og gera þær einfaldari. Spurningarnar sem vakna við svona ágreining eru margar og því er það sjálfsagður réttur skáksveita að leggja fram kæru til mótanefndar telji lið að á þeim hafi verið brotið.



No comments:

Post a Comment