Sunday, September 8, 2013

Goðinn-Mátar hraðskákmeistari taflfélaga

Það var gríðarlega spenna fyrir úrslitaviðureign Hraðskákkeppni taflfélaga sem fram fór í húsnæði Skákskóla Íslands í dag. Um var að ræða endurtekið efni en Goðinn-Mátar og Víkingaklúbburinn mættust í úrslitum rétt eins og fyrra. Þá þurfti að grípa til bráðabana eftir að sveitirnar urðu jafnar 36-36. Þá hafði Víkingaklúbburinn betur í bráðabana 3,5-2,5. 
Ljóst var fyrirfram að sveitirnar væru gríðarlega jafnar og flestir spáðu jafnri viðureign og jafnvel að aftur kæmi til bráðbana. Í sveit Víkingaklúbbsins vantaði Magnús Örn Úlfarsson en í sveit Goðans-Máta vantaði Hlíðar Þór Hreinsson. GoðMátar máttu hins vegar betur við forföllum enda með töluvert meiri breidd en Víkingarnir.
Í upphafi einvígisins var sunginn afmælissöngurinn til heiðurs Gunnar Frey Rúnarssyni liðsstjóra Víkingaklúbbsins sem á afmæli í dag.
Goðinn byrjaði með látum, vann fyrstu umferðina 5-1. Víkingar komu hins vegar sterkir til baka og með sigrum með annarri og þriðju umferð voru þeir skyndilega komnir yfir. Víkingar leiddu svo 19-17 í hálfleik.
GoðMátar byrjuðu svo seinni hlutann með látum þegar þeir unnu fyrstu viðureignina eftir hálfleik (7. umferð) 4,5-1,5 og höfðu þar með endurheimt forystuna. Þeir héldu forystunni fram til 10. umferðar þegar Víkingar jöfnuðu metin. Staðan orðin 30-30. Goð-Mátar unnu svo elleftu umferðina 4-2 og leiddu 34-32. Tekið var 5 mínútna hlé og GoðMátar byrjuðu lokaumferðina vel, voru komnir með aðra höndina á titilinn 36-33 en Víkingar unnu þrjár síðustu skákirnar og jöfnuðu metin 36-36!
Og þá var komið að bráðabana. Þetta var í þriðja skipti í sögu keppninnar sem það gerist. Það gerðist fyrst fyrsta keppnisár keppninnar1995 þegar Taflfélag Garðabæjar vann Skákfélag Hafnarfjarðar í átta liðum úrslitum eftir bráðabana. Næst gerðist það í fyrra hjá Víkingum og Goðum!
Spennan var nánast óbærileg fyrir bráðabanann. GoðMátar byrjuðu vel og í stöðunni 3-2 þráskákaði Þröstur Þórhallssyni á móti Stefáni Kristjánssyni og þar með ljóst að sigurinn væri Þingeyinga.
Þeir voru vel að þessu komnir. Fengu erfiða andstæðinga í öllu umferðum þ.e. TR, Helli og Bolvíkinga fram að úrslitunum. Jón Þorvaldsson, liðsstjóri þeirra er ákaflega klókur sem slíkur og er með öll sálfræðitrikkin á hreinu.
Skor GoðMáta var tiltölulega jafnt. Einar Hjalti Jensson hlaut 7,5 vinning, Ásgeir P. Ásbjörnsson, Þröstur Þórhallsson og Sigurður Daði Sigfússon fengu 7 vinninga. Daði reyndist ákaflega dýrmætur "varamaður" en hann kom inn í liðið í fjórðu umferð og var því með 70% skor.
Hannes Hlífar Stefánsson bar höfuð og herðar yfir félaga sína í Víkingaklúbbnum og hlaut 11 vinninga í 13 skákum. Ótrúlega gott skor í svo sterkri keppni. Davíð Kjartansson hlaut 8,5 vinning en Stefán Kristjánsson og Björn Þorfinnsson 8 vinninga. Það sem reyndist Víkingum í raun og veru að falli að enginn vinningur kom í hús á sjötta borði. Afmælisbarnið Gunnar Freyr, formaður og liðsstjóri Víkinga, gerði sér lítið fyrir og vann Helga Áss 2-0.
Einstaklingsskor má nálgast hér. Þar vantar reyndar úrslit bráðabanans en þar urðu úrslit sem hér segir:
  • Helgi Áss Grétarsson - Hannes Hlífar Stefánsson 0-1
  • Þröstur Þórhallsson - Stefán Kristjánsson 0,5-0,5
  • Ásgeir P. Ásbjörnsson - Björn Þorfinnsson 0-1
  • Einar Hjalti Jensson - Davíð Kjartansson 1-0
  • Sigurður Daði Sigfússon - Gunnar Freyr Rúnarsson 1-0
  • Kristján Eðvarðsson - Stefán Þór Sigurjónsson 1-0
Myndir frá keppninni væntanlegar. Fjöldi áhorfenda var viðstaddur keppnina og stemming á skákstað mjög mikil.

Það var Taflfélagið Hellir sem stóð fyrir keppninni sem nú fór fram í 19. sinn. Skákstjórar voru Rúnar Berg og Gunnar Björnsson.

No comments:

Post a Comment