Unglinga og barnastafið á miðvikudögum er það sem við erum hvað stoltastir af. Vissulega erum við ekki að sömu stærðargráðu og risarnir Fjölnir, TR og Hellir í barnastarfi. En við getum lært margt af þeim og samkeppnin er af hinu góða. Sem betur fer þá er samstarf milli félgana gott og fínt er að leita til manna eins og t.d Jóns Þorvaldssonar, Vigfús Óðins Vigfússonar (GM-Helli), Helga Árnasonar og Gunnars Björnssonar ef maður vill fá ráðleggingar. Einnig var samstarfið við Vinjarfélagið gott á árinu, en þeir hafa margsinnis lánað okkur töfl og klukkur. Haraldur Baldursson stjórnarmaður í félaginu hefur verið duglegur í hinum ýmsu verkefnum og þar kemur reynsla hans að góðum notum. Sigurður Ingason hefur hjálpað mikið til við skákkennsluna á miðvikudögum, en einnig hafa Tómas Björnsson og Stefán Þór Sigurjónsson hjálpað til. Hannes Hlífar Stefánsson og Björn Þorfinnson tefldu fjöltefli í vetur, sem heppnuðust vel. Það var líka gott að finna hvað baklandið hjá Víking var sterkt og án þeirra hefði þetta ekki verið mögulegt. Á æfingar hjá okkur hafa komið krakkar úr öðrum félögum. Sérstaklega ánægjulegt að Lenka Ptacnikova leiðbeindi okkur í haust. Einnig Siguringi Sigurjónsson og Stefán Bergsson á stóra barnamótinu í desember. Hópurinn var ekki stór, en hann hefur fjölgað jafnt og þétt. Sérstaklega langar mig að minnast á tvo unga menn, sem mæta á næstum hverja einustu æfingu í vetur. Annar er frændi minn fæddur 2007 og byrjaði í haust, en hinn er fæddur 2005 og byrjaði síðasta haust og hefur tekið stórstígum framförum. Fleirri krakkar hafa verið að stimpla sig inn með áhuga og ástundun. Einu vonbrigðin á árinu ef svo má að orði komast var að klúðra því að senda sveit á Íslandsmót barnaskólasveita í nóvember. Við vorum ekki með neitt vinningslið, en aðalatriðið er að vera með og byggja upp góðan grunn fyrir framtíðina. Við munum klárlega senda tvær sveitir í þessa keppni á næsta ári. Árangur D-liðsins í 4. deild, sem skipuð var strákum fæddum árið 2005 og eldri var mjög góð. Sveitin er nú ofarlega í 4. deild og það verður spennandi að sjá hvernig þeir spjara sig í seinni hluta keppninnar í lok febrúar.
Víkingaskákin sjálf hefur aðeins dalað, en núna er stefnt á að spíta í lófana og auka iðkendum. Íslandsmótið í Víkingaskák 2013 gekk mjög vel og það var ánægjulegt að sjá þrjár mjög áhugasamar stúlkur úr Skákfélaginu Ó.S.K taka þátt. Þær muna koma sterkar inn á næsta ári og gera Víkingaskákinna enn skemmtilegri. Það er bjargföst trú formanns að Víkingaskákin og Klassíska-skákin, eiga að vera áfram undir einum hatti hjá félaginu. Við erum með eitt félagatal, en allir áhugamenn um Víkingaskák í öðrum skákfélögum eru velkomnir í okkar félag sem aukafélagar. Einnig er ég með bón til félagsmanna um að hjálpa til ef þeir hafa tök á meðan starfið er að komast í fastara form. Starfið hefur verið á of fáum herðum, en vonandi náum við að dreifa álaginu svo við þessir fáu þurfum ekki að brenna út. En vissulega ánægjurlegt að sjá að allur svitinn, blóðið og tárin eru að skila sér í öflugu félagi.
Skákmaður ársins hjá Víkingaklúbbnum: Hjörvar Steinn Grétarsson. Hjörvar kom til félagsins síðasta haust til að styrkja okkur í titilvörninni. Hjörvar hefur staðið sig vel á árinu og náði síðasta áfanga sínum að stórmeistaratitli í ferðinni til Ródos í haust. Hjörvar sigraði einnig glæsilega á hraðskákmóti Víkingaklúbbsins í desember. Hjörvar er glæsilegur fulltrúi félagsins og stefnir á enn stærri hluti í framtíðinni. Ekki er hægt að segja hversu lengi hann verður í félaginnu, en við erum þakklátir fyrir þann tíma sem meistararnir gefa okkur.
Víkingaskákmaður ársins hjá Víkingaklúbbnum: Þröstur Þórsson. Þröstur hefur bætt sig gríðarlega á árinu í Víkingaskákinni. Hann vann nokkra frækna sigra og er á góðri leið með að verða fyrsti Íslandsmeistarinn í Víkinga-bréfskák, en því móti fer senn að ljúka.
Óska öllum skákfélögum nær og fjær gleðilegs árs.
Gunnar Fr. Rúnarsson